Hvatningarverðlaun FKA-DK 2025

Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku veitti á Kvennafrídaginn, þann 24. október 2025, Hvatningarverðlaun félagsins í fjórða sinn. Að þessu sinni var það Ynja Mist Aradóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Bake My Day, sem hlaut verðlaunin. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár íslenskri konu sem þykir hafa skarað fram úr í dönsku atvinnulífi, veitt innblástur og verið öðrum konum fyrirmynd í störfum sínum og samfélagslegri virkni.

Jórunn Einarsdóttir og Ynja Mist Aradóttir

Jórunn Einarsdóttir, formaður FKA-DK og Ynja Mist Aradóttir handhafi Hvatningarverðlauna FKA-DK 2025. / Ljósmynd: Bryndis Thorsteinsdottir Photography

Ynja Mist Aradóttir stofnaði fyrirtækið sitt, Bake my day, aðeins 21 árs gömul. Ynja hefur byggt upp fyrirtækið frá grunni yfir í að vera stórt fyrirtæki með yfir 20 starfsmenn á tveimur starfsstöðvum. Bake my day er kaffihús, bakarí og kökugerð sem býr til sérhannaðar kökur. Starfsstöðvar fyrirtækisins eru við DR byen og í verslunarmiðstöðinni Fisketorvet. Ynja er mjög duglega að deila reynslu sinni af eigin rekstri, bæði sigrum og þeim áskorunum sem hún hefur mætt í rekstrinum. Ynja er frábær fyrirmynd ungra kvenna og þeirra sem vilja byggja upp eigin rekstur.

Verðlaunin voru veitt á hátíðlegum viðburði sem sendiherra Íslands í Danmörku, Pétur Ásgeirsson, bauð félagskonum til. Metfjöldi tilnefninga var til verðlaunanna að þessu sinni en 23 frambærilegar íslenskar konur í dönsku atvinnulífi voru tilnefndar. Verðlaunin eru mikilvæg viðurkenning á framlagi kvenna innan félagsins sem hafa hvatt aðrar konur áfram, verið leiðandi og stuðlað að jákvæðum breytingum í atvinnulífinu.

Sérstök nefnd er skipuð sem útnefnir verðlaunahafann og var nefndin að þessu sinni skipuð þeim: Berglindi Hallgrímsdóttur - senior advisor hjá Norrænu ráðherranefndinni, Dóru Fjölnisdóttur - verðlaunahafa Hvatningaverðlaunanna 2023 og Ástu Stefánsdóttur - verkefnastjóra á Norðurbryggju og fyrrum stjórnarkonu FKA-DK.

Á dagskrá viðburðarins var erindi frá Pétri Ásgeirssyni, sendiherra Íslands í Danmörku og Jórunni Einarsdóttur, formanni FKA-DK. Sandra Gunnarsdóttir og Grétar Ingi Grétarsson fluttu nokkur lög. Þá var spiluð hátíðarkveðja frá Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og að lokum sungu gestir baráttusönginn Áfram stelpur í tilefni dagsins.

Pétur Ásgeirsson, Sendiherra Íslands í Danmörku, veitti Ynju Mist Aradóttur verðlaunin / Ljósmynd: Bryndis Thorsteinsdottir Photography

Ynja Mist Aradóttir, verðlaunahafi Hvatningarverðlauna FKA-DK 2025:

“Það er ótrúlegur heiður að fá Hvatningarverðlaun FKA-DK. Að fá þessa viðurkenningu kom mér algjörlega í opna skjöldu, enda hafði ég ekki planað neitt til þess að segja.

Óundirbúin, eins og ég var þegar ég hóf þessa vegferð fyrir 8 árum síðan. Frá 21 árs stelpu sem kunni ekki neitt, yfir í unga konu sem vann frá morgni til kvölds 7 daga vikunnar, og núna fyrirtækjaeigandi með (bráðum) tvö börn undir tveggja, sem þarf ekki alltaf að vera á staðnum.
Mér fannst ég aldrei eiga neitt minni séns af því ég var kona. Eða af því ég var ung. Eða af því ég kunni ekki dönsku. Ef ég ætla, þá get ég.

Ég hafði þorið til þess að byrja og styrkinn til þess að halda áfram. Ég hef ekki gert þetta ein og ég hef fengið mikinn stuðning. Ég væri ekkert án mömmu minnar. Án Aziz. Án fjölskyldunnar minnar. Án þeirra bestu sem hafa unnið/og vinna með okkur. Án þeirra sem gripu mig þegar ég var á mínum veikasta punkti. Án kúnnanna okkar. Án þeirra sem like-a og kommenta á samfélagsmiðlum. Án þeirra sem fylgjast með okkur og hvetja okkur áfram.

Velgengni og vöxtur fyrirtækja krefst ótrúlega mikils stuðnings allra sem koma að verkefninu, starfsfólks, viðskiptavina og fylgjenda. Það er mikið í húfi fyrir lítil fyrirtæki sem hafa takmarkaðar auðlindir og eru að keppa við stórfyrirtæki. Þess vegna er stuðningur ykkar svo ótrúlega mikilvægur.

Ég er svo þakklát fyrir allan þann stuðning og velvilja sem ég hef fengið frá FKA-DK og Íslenska samfélaginu í Danmörku í gegnum árin.”

Jórunn Einarsdóttir, formaður FKA-DK:

“Ég óska Ynju Mist Aradóttur innilega til hamingju með verðlaunin. Hún er svo sannarlega vel að þeim komin enda sýnt ótrúlegan kjark og seiglu á sinni vegferð. 

Hvatningarverðlaunin eru fyrst og fremst viðurkenning á kröftugu framlagi íslenskra kvenna í atvinnulífinu í Danmörku. Með þessum verðlaunum viljum við fagna þeim árangri sem íslenskar konur hafa náð hér í Danmörku og vekja athygli á því mikilvæga hlutverki sem þær gegna, ekki bara í dönsku atvinnulífi heldur líka í samfélaginu. 

Tilnefningarnar til verðlaunanna bera þess einnig merki hversu fjölbreyttur og metnaðarfullur hópur íslenskra kvenna starfar hér í Danmörku en þær eiga það allar sameiginlegt að vera framsæknar og reiðubúnar að leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Þessi verðlaun minna okkur rækilega á að konur skapa tækifæri, ekki aðeins fyrir sig sjálfar, heldur líka fyrir aðrar konur.”

Handhafi Hvatningarverðlauna FKA-DK 2025, Ynja Mist Aradóttir, ásamt þeim flotta hóp sem tilnefndur var til verðlaunanna. / Ljósmynd: Bryndis Thorsteinsdottir Photography

Tilnefndar til Hvatningarverðlauna FKA-DK 2025 voru:

  • Anna Hansen

  • Ásta Stefánsdóttir

  • Edda Hrönn Kristinsdóttir

  • Elinóra Guðmundsdóttir

  • Guðrún Anna Atladóttir

  • Guðrún Jóna Jónsdóttir

  • Guðrún Ólöf Olsen

  • Guðrún Þórey Gunnarsdóttir

  • Halla Benediktsdóttir

  • Harpa Birgisdóttir

  • Helena Guðrún Bjarnadóttir

  • Hildur Ársælsdóttir

  • Jóhanna Edwald

  • Jórunn Einarsdóttir

  • Kristín Einarsdóttir Scobie

  • Kristín H. Kolbeinsdóttir Diego

  • Kristín Kristjánsdóttir

  • Laufey Karitas Einarsdóttir

  • María Ester Guðjónsdóttir

  • Ragnhildur Þórðardóttir

  • Sif Jakobs

  • Stefanía Bjarnadóttir

  • Ynja Mist Aradóttir

Það var líf og fjör á verðlaunaafhendingunni / Ljósmynd: Bryndis Thorsteinsdottir Photography

Myndir: Hvatningarverðlaun FKA-DK 2025

Ljósmyndir Bryndis Thorsteinsdottir Photography

Um FKA-DK

FKA-DK er samfélag kvenna á öllum aldri. Kvenna sem starfa við allskonar störf; hjá hinu opinbera, í einkageiranum eða eru sjálfstætt starfandi. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að vera staðsettar í Danmörku. Í FKA-DK styðja, hvetja og lyfta konur hverri annarri upp. 

FKA-DK er opið öllum konum sem búa í Danmörku. Konum sem eru á eða á leið út á atvinnumarkaðinn. Ekki er þörf á því að sækja um aðild eða skrá sig sérstaklega. Allir viðburðir félagsins eru opnir og það þarf ekki að vera skráður meðlimur til þess að taka þátt.

Next
Next

Tengsl skapa tækifæri