Nú þegar 2025 er liðið

Jórunni Einarsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku skrifar áramótaannál.

Við áramót er ágætt að staldra aðeins við og líta yfir farinn veg. Með tilkomu samfélagsmiðla og tækninnar er auðvelt að rifja upp myndirnar sem við deildum, tónlistina sem hlustuðum á og dýrmæt augnablik með fjölskyldu og vinum. Þetta er tími uppgjörs og þakklætis.

Þegar ég lít yfir árið sem er að líða hjá Félagi íslenskra kvenna í atvinnulífinu í Danmörku koma orðin vöxtur - samstaða - hugrekki og gleði upp í hugann. Þau lýsa ekki aðeins viðburðum ársins, heldur líka því samfélagi sem við viljum byggja saman.

Félagið gegnir afar mikilvægu hlutverki fyrir íslenskar konur í Danmörku. Tengslanetið sem hér myndast er okkur dýrmætt. Markmið okkar er fyrst og fremst að skapa vettvang þar sem við stöndum saman, styðjum hver aðra og deilum reynslu okkar. Í slíku rými verður vöxtur óhjákvæmilegur; bæði faglegur og persónulegur. Þar birtist að mínu mati styrkur félagsins, þegar við sýnum hugrekki, opnum okkur fyrir nýjum tengslum og sækjum fram í nýju og framandi umhverfi. Gleðin er órjúfanlegur hluti af starfi félagsins; hún birtist í samtölum, hlátri og samveru og minnir okkur á að við erum ekki einar. Það er alltaf jafn magnað að upplifa kraftinn þegar konur koma saman með það að markmiði að efla hver aðra.

Á árinu héldum við fjölbreytta og lifandi viðburði. Þar má nefna live podcast með Ástu Stefáns þar sem Anna Hansen söngkona var gestur, og hátíðardagskrá á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars með Guðrúnu Fjólu Guðmundsdóttur umhverfisverkfræðingi. Við fræddumst um fjárfestingar í samstarfi við Arion banka, þar sem Snædís Ögn Flosadóttir miðlaði dýrmætri innsýn, og fögnuðum sumrinu á frábærum Kampavínsleikum undir skemmtilegri handleiðslu Önnu Svandísar Gísladóttur.

Við tókum á mikilvægum málefnum á borð við svefn og heilsu kvenna, fögnuðum nýju upphafi með Siggu Dögg kynfræðingi og rithöfundi, efldum tengslamyndun í samstarfi við FKA – Atvinnurekendur Auðar og fengum einstaka innsýn í skapandi atvinnulíf með fyrirtækjaheimsókn til Sifjar Jakobs skartgripahönnuðar.

Hápunktur ársins var án efa afhending Hvatningarverðlaunanna, sem voru veitt í fjórða sinn. Fjöldi frábærra tilnefninga barst og dómnefnd stóð frammi fyrir erfiðu vali. Að þessu sinni hlaut Ynja Mist Aradóttir, eigandi Bake My Day, verðlaunin. Ynja Mist er afar vel að viðurkenningunni komin og innblástur fyrir okkur allar.

Ég er einstaklega stolt af stjórn félagsins, sem skipuð er hæfileikaríkum, dugmiklum og skemmtilegum konum. Samstarfið innan stjórnarinnar er bæði faglegt og skemmtilegt en líka á stundum krefjandi. Án þessara frábæru kvenna væri þetta starf ekki mögulegt.

Við settum okkur háleit markmið á árinu og ein af nýjum áherslum var mentorverkefnið sem fór af stað á haustmánuðum. Áhugi var meiri en við gátum sinnt, vissulega lúxusvandi svo ekki sé meira sagt og staðfesting á því hversu mikil þörf er fyrir vettvang af þessu tagi.

Við byrjum nýtt ár af krafti og á heimasíðunni okkar er hægt að sjá yfirlit yfir næstu viðburði.

Ég vil sérstaklega nefna spennandi viðburð þann 5. febrúar í samstarfi við Kötlu Nordic, þar sem Pandora tekur á móti okkur. Einstakt tækifæri sem engin ætti að láta framhjá sér fara. Hápunktur ársins er svo ráðstefna félagsins 2026, sem haldin verður 24. október á Norðurbryggju. Við hlökkum til að kynna dagskrána þegar nær dregur og ég hvet ykkur eindregið til að setja dagsetninguna í dagatalið þar sem miðar á fyrri ráðstefnur seldust upp.

Að lokum vil ég þakka ykkur öllum fyrir þátttökuna í starfi félagsins. Með því að mæta á viðburði hafið þið stuðlað að fjölbreyttu og skemmtilegu starfsári. Íslenska kvennasamfélagið í Danmörku er sterkt og saman höldum við áfram að vaxa, styrkjast og hafa gaman.

Next
Next

Hvatningarverðlaun FKA-DK 2025