top of page

Hlaðvarp

Hlaðvarp FKA-DK fór í fyrsta skipti í loftið í ágúst 2021 og ber nafnið Damerne først! Í þessum þáttum skyggnumst við inn í líf og störf íslenskra kvenna í Danmörku, kynnumst vegferð þeirra, uppáhalds drykknum og lífsmottóum. Skemmtileg innsýn í heim skemmtilegra kvenna!

Damerne først! Instafeed.png

Þættirnir

14-12-23

#30 ragna sara jónsdóttir-stofnandi og listrænn stjórnandi hjá fólk reykjavík 

1665734337070.jpg

Ragna Sara Jónsdóttir hefur komið víða við á lífsleiðinni, en undanfarin ár hefur fókusinn verið á að efla hönnunarfyrirtækið FÓLK Reykjavík, sem Ragna Sara stofnaði 2017. Hér starfar Sara með íslenskum hönnuðum að því að skapa hönnun þar sem að sjálfbærni og hringrás hráefna er í fyrirrúmi, auk þess að vera stökkpallur fyrir íslenska hönnun erlendis. Nýverið flutti fyrirtækið bækistöðvar sínar til Kaupmannahafnar en í spjallinu heyrum við af starfi hennar í dag, sem og þeim fjölmörgu hlutverkum sem hún hefur brugðið sér í á lífsleiðinni.

Hægt er að lesa nánar um FÓLK Reykjavík hér: www.folkreykjavik.is

07-12-23

#29 iona sjöfn huntington-williams-grafískur hönnuður

1698260228533.jpg

Iona Sjöfn er búin að upplifa sittlítið af hverju á vegferð sinni sem grafískur hönnuður. Til að byrja með var brautin breið og allt gekk eins og í sögu, en dæmið varð aðeins flóknara þegar hún flutti til Danmerkur og reyndi við samskonar stöður þeim megin hafsins... Allt í einu voru tækifærin engin og Iona þurfti að hugsa leikinn upp á nýtt. En eins og í bestu ævintýrum þá fór þetta allt á besta veg og í dag státar Iona sig af titlinum Senior Graphic Designer fyrir Uniqlo í Skandinavíu.

30-11-23

#28 una emilsdóttir-læknir í sérnámi í umhverfisfræði

1318256.jpg

Una Emilsdóttir er með brennandi áhuga á að efla skilning fólks á þeim fjölmörgu eiturefnum sem leynast í umhverfi okkar. Hún stundaði læknisnám í Danmörku, en á því tímabili fór hún að átta sig á þeim hættum sem leynast í nærumhverfi okkar, í kremunum sem við smyrjum á okkur, í einnota kaffibollunum sem við súpum latte úr - og svona mætti lengi telja... Þetta varð til þess að hún ákvað að sérhæfa sig í umhverfislæknisfræði, og á sama tíma að nota rödd sína til að efla okkur öll í að velja rétt.

Þetta er hörkukona með hárréttar áherslur í lífinu sem allir ættu að tileinka sér. Góða skemmtun!

23-11-23

#27 harpa halldórsdóttir-landslagsarkitekt 

har.jpg

Harpa Halldórsdóttir er landslagsarkitekt hjá Kragh & Berglund. Hér ræðum við áhrif loftslagsbreytinga á starfið, en leitin að réttu lausnunum þegar það kemur að ofsarigningum og hækkun sjávar má teljast aðkallandi á þessum tímum. Harpa er líka harðsoðinn töffari, enda með pungapróf og skotvopnaleyfi - og svo er hún líka lærður barþjónn. Ég mæli með að halda sig í nágrenni við Hörpu, því hún mun geta bjargað manni úr flestum aðstæðum... já eða bara mixað manni kokteil ef allt fer í vaskinn. Góða skemmtun!

16-11-23

#26 hólmfríður rósa halldórsdóttir-doktor í lífefnafræði

download (2).jpg

Gestur þáttarins er Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir, Postdoc í lífefnafræði við DTU. Hólmfríður hefur unnið við rannsóknir innan ónæmisfræða, og þá með sérstaka áherslu á krabbameinslækningum. Hólmfríður greinir hér frá vegferð sinni innan danska háskólasamfélagsins og veltir m.a. vöngum yfir stöðu kvenna innan samfélagsins.

Hér er sumsé á ferðinni kona sem er að vinna mikilvægt verkefni í þágu lækninga - já, í raun hreinlega að stuðla að betri heimi fyrir okkur öll! Það er nú eitthvað...

Góða skemmtun!

09-11-23

#25 ríkey kristjánsdóttir-útfararstjóri 

download (1).jpg

Ríkey Kristjánsdóttir er sannkallaður þúsundþjalasmiður, enda hefur hún fengist við allt frá búningahönnun til kennslu til gistihúsareksturs. Fyrir nokkru vatt hún síðan kvæði sínu í kross og gerðist útfararstjóri hér í Kaupmannahöfn.

Það er áhugavert að heyra Ríkey segja frá þeim lífsleiðangri sem leiddi hana á þennan stað - en þessi frásögn er stútfull af gullmolum frá stórkostlegri konu.

01-06-23

#24 oddný helgadóttir-dósent í stjórnmálafræði við cbs

oddny_helgadottir_web.png

Gestur þáttarins er Oddný Helgadóttir, dósent í stjórnmálafræði við Copenhagen Business School (CBS). Oddný lauk doktorsprófi frá Brown University í New York, en á meðan á náminu stóð hafði hún unnið part af rannsóknarstörfunum í CBS, sem opnaði fyrir henni dyr að loknu doktorsnámi. Fyrir utan kennslu byggir staða hennar á áframhaldandi rannsóknum innnan stjórnmálafræða og hagsögu. Já og svo er hún með BA-gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands. Áhugaverð u-beygja á ferðinni þar...

25-05-23

#23 gyða guðmundsdóttir-community engagament specialist hjá aeco 

download.jpg

Gestur þáttarins er Gyða Guðmundsdóttir, Community Engagement Specialist hjá AECO – Samtaka leiðangursskipa á Norðurslóðum. Eins og titilinn gefur til kynna þá gengur starfið út á að vinna að því að heimafólk á þeim stöðum sem skipin leggja að og tryggja virka þátttöku þeirra í að taka á móti skipum og sinna gestum á komustað. Það eru fjölmargir gullmolar í þessu spjalli – t.a.m. lýsir Gyða því mjög skemmtilega hvernig hún tekst á við það að vera Íslendingur sem velur að búa í öðru landi.

18-05-23

#22 erla hendriksdóttir-eigandi jódís shoes 

318185529_10159430016354200_7086780422112592867_n.jpg

Í þessum þætti kynnumst við Erlu Hendriksdóttur, en hún er annar eiganda skófyrirtækisins JóDís sem er að gera garðinn frægan bæði í Danmörku og á Íslandi. Hjá JóDís er mikil áhersla lögð á samstarf við áhrifavalda og tískufrömuði, en nýverið gaf fyrirtækið út nýja línu sem er unnin í samstarfi við Elísabetu Gunnars frá Trendnet. Erla flutti þó til Danmerkur til að keppa í fótbolta, því hér er á ferðinni hörku íþróttakona sem hefur keppt í landsliðinu í fótbolta og þegar hún valdi að leggja takkaskóna á hilluna var hún orðin ein leikjahæsta knattspyrnukona Íslands.

Töff kona, algjör fyrirmynd, hvort sem um er að ræða í íþróttaheiminum eða í fyrirtækjarekstri.

11-05-23

#21 snjólaug níelsdóttir-réttarlæknir 

1568100234642.jpg

Gestur þáttarins gegnir mikilvægu og afar krefjandi starfi, en Snjólaug Níelsdóttir er réttarlæknir. Hún starfar bæði í Danmörku og á Íslandi, og í þættinum skyggnumst við inn í þann heim sem réttarlækir lifir og hrærist í - heim sem við hin höfum sem betur fer litla þekkingu af. Snjólaug er vandvirk og skipulögð, með auga fyrir smáatriðum, en þetta eru allt mikilvægir kostir fyrir þann sem fetar þessa starfsbraut. Hún segist líka vera viðkæm sál, og lýsir hér erfiðum tilfinningum sem koma stundum upp á yfirborðið þegar verkefnin hafa verið erfið. En undir yfirborðinu leynist líka Breiðholtstöffari af bestu gerð!

04-05-23

#20 mollý jökulsdóttir-verkefnastjóri hjá bestseller

1698233117876.jpg

Mollý Jökulsdóttir flutti aðeins 19 ára gömul til Danmerkur og á aðeins 6 vikum var hún búin að opna kaffihús. Það segir sitthvað um kraftinn í henni, en þegar Mollý setur sér markmið þá leggur hún mikið á sig við að ná þeim - bæði í starfi sem og í öðrum málum. Þegar Mollý tók stefnuna á að komast upp á svið í bikiní-fitness keppni, lagði hún allt undir til að ná þeim árángri sem hún setti sér - og það skilaði sér! Þó ekki endilega á besta veg, því það reyndist þrautaganga að finna leiðina niður af sviðinu aftur.

Óhugnaleg saga af hörkutóli sem fann þó leiðina að heilbrigðu líferni fyrir rest og segir í dag sögu sína til að benda öðrum á hætturnar sem geta leynst víða.

27-04-23

#19 guðný lára, retail operations manager-wood wood

gud.jpg

Guðný Lára Árnadóttir hefur nýverið tekið við starfi sem rekstrarstjóri verslana hins vinsæla danska tískufyrirtækis Wood Wood, en undanfarin ár hefur hún gegnt lykilhlutverki hjá hinu margrómaða tískuhúsi GANNI. Guðný Lára hefur þó farið vítt og breytt bæði í lífi og starfi og í þessu viðtali heyrum við af fótboltaframa, leiklistarnámi - og konu sem hikar ekki við að senda tölvupóst á forstjórann ef henni finnst að eitthvað mætti betur fara! Já og svo skilur hún mikilvægi þess að koma vel fram við fólk - hreinlega bara horfa í augun á því og hlusta. Þá skilur maður eftir gott fótspor í lífinu.

OKT 2022

#18 katla gunnarsdóttir-smörrebrauðsjómfrú

katla.jpg

Katla Gunnarsdóttir vissi alltaf að hún vildi verða smörrebrauðsjómfrú. Í raun vissi hún líka alltaf að hún myndi vilja búa í Danmörku - var einskonar wannabe-Dani eins og hún lýsir því sjálf. Eftir örlítið daður við ljósmyndanám í Barcelona, rataði hún þó til Kaupmannahafnar þar sem hún lét drauminn rætast. Í þættinum fyllir smörrebrauðið sjálft talsvert, því Katla bauð Ástu Stefánsdóttur út að borða á Tivolihallen þar sem hún starfar samhliða námi. Þetta er öðruvísi þáttur, þar sem síld og snaps fá sinn sess í spjallinu - en örvæntið ekki, það er að sjálfsögðu Katla og vegferð hennar sem eru í aðalsæti.

OKT 2022

#17 Eva sigurbjörg þorkelsdóttir-manager hjá deloitte

eva.webp

Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir er Manager hjá stórfyrirtækinu Deloitte - en ekki nóg með það, hún situr líka í stjórn þess hér í Danmörku. Svo er hún líka ein af þeim konum sem hika ekki við að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd, hvort sem um er að ræða að koma á legg stúdentafélagi innan háskólans eða stofna til félags ungra athafnakvenna í Danmörku. Eva er skýr, skörp og skemmtileg - og í þessu spjalli heyrið þið áhugaverðar sögur af því hvernig hún hefur lagt sitt af mörkum til að breyta pólitíkinni hjá einu af stærstu fyrirtækjum Danmörku.

OKT 2022

#16 hugrún fjóla hafsteinsdóttir-qa manager hjá modl.ai & tónlistakona 

hugrún.jpg

Hugrún Fjóla Hafsteinsdóttir var nýverið "headhöntuð" sem gæðatryggingarstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu modl.ai. Hún er með meistaragráðu í stærðfræði, og vill meina að prjón og hekl hafi skipt miklu máli í því hvernig hún skilur stærðfræðina... Og svo er hún líka tónlistarkona sem fór alla leið í möntrusöng í Kundalini-jógaheiminum; var hreinlega uppgötvuð þegar hún stundaði jóganám í Köben! Í öllu falli er Hugrún stórskemmtileg og athyglisverð kona með óbilandi áhuga á því sem lífið hefur upp á að bjóða - og hjartadrottningu fyrir nafnspjald! Já, þið verðið bara að hlusta á spjallið til að skilja hvað ég er að meina...

SEPT 2022

#15 fjóla díana gunnarsdóttir olsen-eigandi curelab

fjóla.jpg

Fjóla Díana er snyrtifræðingur og eigandi fyrirtækisins CureLab í Charlottenlund. Fyrirtækið telur fjölda starfsmanna og býður upp á allskyns meðferðir, greiningar, líkamsrækt og ýmislegt fleira - en Fjóla hefur svo sannarlega unnið hörðum höndum í að koma fyrirtækinu á þennan stað. Hér heyrum við söguna af því hvernig hagsýn íslensk kona hóf ferðalagið með heimasmíðaðri stofu og ikeaskál fyrir andlitsböðin. Hún er þó komin langa leið síðan þá, og heimsókn í CureLab í Charlottenlund myndi sæma sjálfri drottningunni.

SEPT 2022

#14 Halla ben-umsjónamaður jónshúss 

halla.jpg

Halla Ben er best þekkt sem Halla í Jónshúsi, en hún hefur svo sannarlega átt fjölbreytta ævi í ýmsum löndum, störfum og félagsmálum. Halla er drífandi og afkastamikil, og tengslanet hennar fer ört vaxandi, enda er hún stundum kölluð móðir Íslendinga í Kaupmannahöfn. Í þessu spjalli förum við um víðan völl, ræðum háskólagráðurnar þrjár, prjónaáhugan sem hefur fært flíkurnar hennar á forsíður glanstímarita, sem og uppbyggingu félagsstarfseminnar FKA-DK sem Halla hefur stýrt af eldmóði og alúð - eins og Höllu einni er lagið.

SEPT 2022

#13 Harpa Birgisdóttir-Prófessor í umhverfisverkfræði

harpa_web.jpg

Harpa Birgisdóttir er umhverfisverkfræðingur og prófessor við Álaborgarháskóla í Kaupmannahöfn (BUILD). Þegar það kemur að loftslagsbreytingum og mikilvægi þess að minnka kolefnislosun megum við engann tíma missa, en ásamt teymi sínu í BUILD hefur Harpa þróað kerfi sem gerir arkitektum og verkfræðingum kleift að reikna út kolefnisspor bygginga. Afar mikilvægt verkfæri, því byggingariðnaðurinn er einn sá versti þegar það kemur að umhverfismengun og kolefnislosun.

Þetta er sumsé kona sem er að vinna að betri heimi... og oftar en ekki í gullskóm! Skemmtilegt spjall við afar öfluga konu.

11.2.2022

#12 Hildur Þórisdóttir-Framkvæmdastjóri Kastruplund

Screenshot 2022-02-11 at 11.33.56.png

Hildur Þórisdóttir rekur Kastruplund, sem er stofnun undir Rauða Krossinum. Hún er menntuð í Kultur- og sprogmødestudier og Félagslegri sálfræði frá (RUC) Háskólanum í Hróarskeldu - en hér var brautin lögð, því Hildur hefur sérhæft sig í störfum sem koma að fólki sem þarf á stuðningi að halda við að fóta sig í samfélaginu. Hún er líka stútfull af samfélagslegri ábyrgðartilfinningu og í þessu spjalli heyrum við hvernig við getum öll lagt okkar að mörkum til að bæta líf fólks sem minna má sín. Hún vinnur göfugt og mikilvægt starf, enda öflug og afar heilsteypt kona hér á ferð.

28.1.2022

#11 Dóra Fjölnisdóttir -Principal hjá Netcompany

272776509_671261747640128_2781138090785967043_n.jpg

Dóra Fjölnisdóttir er tölvunarfræðingur og yfirmaður yfir prófunum og gæðaeftirliti hjá Netcompany, einu af stærstu fyrirtækjum Danmerkur í stafrænum lausnum. Hún hefur náð miklum frama innan þessa 6500 manna fyrirtækis og hlaut nýverið stöðuhækkun sem setur hana á næstefsta þrepið þar á bæ, en hún ber nú titilinn Principal. Dóra hefur svo sannarlega unnið fyrir þessu, aldrei ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, og sýnir okkur að fjögur fæðingarolof eru sko engin hindrun þegar maður bara heldur sér við efnið. Dóra hlaut tilnefningu í Nordic Women in Tech Awards 2021 - sem ætti ekki að koma neinum á óvart! Hún er nefnilega algjör negla!

28.1.2022

#10 Lovísa Dröfn - Kvikmyndaframleiðandi

Screenshot 2022-01-28 at 14.15.52.png

Lovísa Dröfn starfar sem kvikmyndaframleiðandi og aðstoðarleikstjóri og hefur komið víða við á síðustu árum. Stuttmyndin "Ama´r Halshug" sem hún framleiddi 2021 hefur m.a. unnið til fjölmargra verðlauna, og svo má líka nefna þáttaröðina "En rigtig vejrmand", sem sýnd hefur verið á DR við góðar undirtektir, en Lovísa var aðstoðarleikstjóri á þeirri seríu. Leiðin að draumastarfinu var þó ekki bein og breið, í raun nokkuð óhefðbundin mætti segja, en Lovísa er menntaður enskufræðingur, förðunarfræðingur - já og með nokkra áfanga úr guðfræði í ofanálag! Svo lýsir hún líka fótboltaleikjum fyrir Viaplay - ein af örfáum konum í því starfi. Umfram allt hefur Lovísa þó verið góð í að halda öllum dyrum opnum, og að segja JÁ við því sem býðst (jafnvel þótt hún sé að stíga út fyrir þægindarammann). Klár og kjörkuð kona og sannkölluð fyrirmynd.

21.1.2022

#9 Guðrún Ólöf Olsen - Lögfræðingur hjá BCG

Screenshot 2022-01-21 at 09.30.26.png

Guðrún Ólöf Olsen er algjört hörkutól. Hún veit svo sannarlega hvað hún vill og ber sig eftir því - meira að segja þegar það krefst þess að liggja yfir viðskiptafræðum og hugarreikningi að loknum löngum vinnudegi sem lögfræðingur! Hún hefur starfað hjá ráðgjafafyrirtækinu Boston Consulting Group frá því í janúar 2021, en það er eitt af "The Big 3" - eitt af þremur stærstu ráðgjafafyrirtækjum heims. Hér kemst ekki hver sem er að, en eins og heyra má í þessu spjalli er Guðrún Ólöf klár og örugg með sitt, og ég spái henni glæstri framtíð í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur.

14.1.2022

#8 Kristín Brynja Gunnarsdóttir - Eigandi einrúm

kristín brynja.jpeg

Kristín Brynja Gunnarsdóttir er arkitekt, innanhúsarkitekt, og síðast en ekki síst, garnframleiðandi og prjónahönnuður. Hún er konan á bak við Einrúm garnið, en Einrúm er afurð sögu og minninga, tveggja ólíkra heima, tveggja ólíkra þráða - spunnið úr íslenskri ull og tælensku mórberjasilki. Þó þú hafir engan skilning á prjóni, þá er þetta áhugaverður þáttur, því það að reka fyrirtæki er oftar en ekki sama uppskriftin – hvað sem maður er að selja. Kristín lýsir því hér hvernig hún er búin að vera hlaupa endalaust maraþon síðan 2013 þegar hún hóf framleiðsluna, en það hefur líka skilað sér, því í dag selur hún garn og uppskriftir út um allan heim, frá Bandaríkjunum til Ítalíu til Suður Kóreu.

7.1.2022

#7 Ragga nagli - sálfræðingur & heilsugúru

Ragga nagli.jpeg

Röggu Nagla þarf vart að kynna. Hún er landsþekkt á meðal Íslendinga, fyrir störf sín sem sálfræðingur, áhrifavaldur, fyrirlesari, námskeiðahaldari, bloggari, heilsugúru og nagli! En, eins og vonandi kemur skýrt fram í þessu hlaðvarpi, þá er Ragnhildur Þórðardóttir líka hlý, yndisleg, gáfuð og skemmtileg. Það er því ekki leiðinlegt að kynnast betur konunni á bakvið Naglann. Hér heyrum við af djammaranum sem sprakk eftir skokkhring um Tjörnina, símasöludömunni í Skotlandi, fræðimanninum sem skoðaði svarthvítar hugsanir og Naglanum sem sótti á brattann, en uppgötvaði þar mikilvægi mótvægisins: að muna að sýna sér mildi. Góða skemmtun!

17.9.2021

#6 Ynja Mist Aradóttir - eigandi bake my day

241873333_584838619312156_1694052963373942731_n.jpg

Í þessum þætti heyrum við af ungri athafnakonu á uppleið. Ynja Mist Aradóttir kom til Kaupmannahafnar til að fara í myndlista- og hönnunarnám, en rambaði svo inn á allt aðra braut. Árið 2017 bauðst henni að taka við kökuskreytingafyrirtækinu "Bake my Day" og á aðeins 4 árum (og þar af 1,5 ár með Covid-hömlum) hefur Ynju tekist að byggja upp traust og vinsælt fyrirtæki með 5 starfsmenn í fastri vinnu. Og í haust eru breytingar í nánd þar sem Bake my Day tekur skref í átt að því að verða enn stærra fyrirtæki. Ynja er algjör Lína Langsokkur, hefur tröllatrú á sjálfri sér - og viti menn, það bara virkar! Hún er dugnaðarforkur og veitir mikinn innblástur. Verði ykkur að góðu!

10.9.2021

#5 Herdís steingrímsdóttir - Dósent við CBS

herdís.jpeg

Í þessum þætti kynnumst við Herdísi Steingrímsdóttur, dósent við Copenhagen Business School (CBS) í Kaupmannahöfn. Herdís er vinnumarkaðshagfræðingur að mennt, en hún hefur nýverið hlotið 6 mio DKK styrk til að rannsaka verkaskiptingu foreldra, bæði á Íslandi og í Danmörku. Herdís segir hér frá rannsóknaverkefninu, en einnig veltum við vöngum hvað varðar launamismun kynjanna og fæðingarorlofsmál beggja landa - og hvort þetta tvennt hangi kannski saman? Áhugavert spjall og fræðandi, svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að velta þessum steinum! (45 min)

3.9.2021

#4 ChristinE Blin - Frumkvöðull & athafnakona

newmero.jpeg

Við kynnum til leiks Christinu Blin, frumkvöðul og athafnakonu. Árið 2014 stofnaði hún fyrirtækið Newméro ásamt eiginmanni sínum Allan Cheng, en á örfáum árum hefur fyrirtækið halað inn viðurkenningum og verðlaunum á sviði þroska- og kennsluleikfanga - enda stuðla þessir sérstöku talnakubbar að bættum stærðfræðiskilningi barna. Fyrirtækið selur talnakubbana um allan heim, allt frá Ameríku til Indónesíu, og bækistöðvarnar - þar sem allar hugmyndir kvikna og businessinum er stýrt - er hreinlega frá heimahúsinu í Virum, spáið í það! Christine segir hér frá hinum ýmsu viðskiptahugmyndum sem hún hefur hrint í framkvæmd á liðnum árum, og rekur sögu Newmérokubbanna sem allir ættu að kynna sér (www.newmero.dk). (27 min)

27.8.2021

#3 Sigurbjörg Elín Hólmarsdóttir - sagnfræðingur

prufa2.jpg

Sigurbjörg er sagnfræðingur og dagskrárgerðarmaður og hefur mikinn áhuga á húsmóðurhlutverkinu. Þá er mikilvægt að undirstrika að þetta er í sagnfræðilegu samhengi - ekki vegna þess að hún sé svo sátt ,,á bak við eldavélina", eins og merkur íslenskur stjórnmálamaður sagði einhverntímann. Sigurbjörg hefur skoðað hlutverk húsmóðurinnar með því að rýna í gamlar matreiðslubækur og er um þessar mundir að leggja lokahönd á útvarpsþætti fyrir RÚV þar sem horft er til húsmæðra Íslands fyrr og nú. Við heyrum af dagskrárgerðarstarfinu og lífsmottóinu, svo ekki sé minnst á dálæti hennar á ákveðinni rauðvínsþrúgu. (27 min)

20.8.2021

#2 Vigdís finnsdóttir - Eigandi Boutique fisk & retreat

vf_pic_.jpg

Vigdís Finnsdóttir er mörgum kunn hér í Danmörku. Eftir að hafa starfað sem kennari í nokkur ár sneri hún kvæði sínu í kross og kastaði sér út í eigin rekstur ásamt eignmanni sínum, Jesper, og bróður sínum Björgvini. Þau komu á legg fiskbúðinni Boutique Fisk sem seldi fiskrétti á allt annan hátt en Danir áttu að venjast. Þetta gekk vonum framar og nokkrum árum síðar opnuðu þau Retreat, sem selur hollan skyndibita fyrir fólk á hlaupunum. Þetta var heljarinnar ævintýri og munu hlustendur fljótlega átta sig á, að hér er á ferðinni algjör dugnaðarforkur sem lætur fátt stoppa sig. (45 min)

13.8.2021

#1 Helga Hauksdóttir - Sendiherra íslands í danmörku

helga harðar.jpeg

Helga Hauksdóttir er menntaður lögfræðingur sem starfað hefur hjá utanríkisþjónustunni bróðurpart (eða eigum við að segja systurpart?) starfsævi sinnar. Fyrir utan að hafa tekist á við fjölbreyttar áskoranir á okkar 'ástkæra ylhýra', hefur Helga einnig sinnt störfum í New York og Stokkhólmi, áður en leið hennar lá til Danmerkur, þar sem hún tók við starfi sendiherra Íslands í ágúst 2019. Þar með gerðist hún einnig fyrsti kvensendiherra í þessu rúmlega 100 ára sendiráði, sem rekur sögu sína aftur til ársins 1920. Aldeilis kominn tími á það! Hér heyrum við af vegferð hennar og spennandi áskorunum í utanríkisþjónustunni, sem og áhugaverðum vangaveltum um hefðbundin karl- og kvenstörf, og breytingar á þeim vettvangi. Já og slúttum svo spjallinu með vel völdum lífsmottóum sem veitt hafa Helgu stuðning og innblástur í gegnum tíðina. (50 min)

bottom of page