Hlaðvarp

Hlaðvarp FKA-DK fór í fyrsta skipti í loftið í ágúst 2021 og ber nafnið Damerne først! Í þessum þáttum skyggnumst við inn í líf og störf íslenskra kvenna í Danmörku, kynnumst vegferð þeirra, uppáhalds drykknum og lífsmottóum. Skemmtileg innsýn í heim skemmtilegra kvenna!

Damerne først! Instafeed.png

Þættirnir

17.9.2021

#6 Ynja Mist Aradóttir - eigandi bake my day

241873333_584838619312156_1694052963373942731_n.jpg

Í þessum þætti heyrum við af ungri athafnakonu á uppleið. Ynja Mist Aradóttir kom til Kaupmannahafnar til að fara í myndlista- og hönnunarnám, en rambaði svo inn á allt aðra braut. Árið 2017 bauðst henni að taka við kökuskreytingafyrirtækinu "Bake my Day" og á aðeins 4 árum (og þar af 1,5 ár með Covid-hömlum) hefur Ynju tekist að byggja upp traust og vinsælt fyrirtæki með 5 starfsmenn í fastri vinnu. Og í haust eru breytingar í nánd þar sem Bake my Day tekur skref í átt að því að verða enn stærra fyrirtæki. Ynja er algjör Lína Langsokkur, hefur tröllatrú á sjálfri sér - og viti menn, það bara virkar! Hún er dugnaðarforkur og veitir mikinn innblástur. Verði ykkur að góðu!

10.9.2021

#5 Herdís steingrímsdóttir - Dósent við CBS

herdís.jpeg

Í þessum þætti kynnumst við Herdísi Steingrímsdóttur, dósent við Copenhagen Business School (CBS) í Kaupmannahöfn. Herdís er vinnumarkaðshagfræðingur að mennt, en hún hefur nýverið hlotið 6 mio DKK styrk til að rannsaka verkaskiptingu foreldra, bæði á Íslandi og í Danmörku. Herdís segir hér frá rannsóknaverkefninu, en einnig veltum við vöngum hvað varðar launamismun kynjanna og fæðingarorlofsmál beggja landa - og hvort þetta tvennt hangi kannski saman? Áhugavert spjall og fræðandi, svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að velta þessum steinum! (45 min)

3.9.2021

#4 ChristinE Blin - Frumkvöðull & athafnakona

newmero.jpeg

Við kynnum til leiks Christinu Blin, frumkvöðul og athafnakonu. Árið 2014 stofnaði hún fyrirtækið Newméro ásamt eiginmanni sínum Allan Cheng, en á örfáum árum hefur fyrirtækið halað inn viðurkenningum og verðlaunum á sviði þroska- og kennsluleikfanga - enda stuðla þessir sérstöku talnakubbar að bættum stærðfræðiskilningi barna. Fyrirtækið selur talnakubbana um allan heim, allt frá Ameríku til Indónesíu, og bækistöðvarnar - þar sem allar hugmyndir kvikna og businessinum er stýrt - er hreinlega frá heimahúsinu í Virum, spáið í það! Christine segir hér frá hinum ýmsu viðskiptahugmyndum sem hún hefur hrint í framkvæmd á liðnum árum, og rekur sögu Newmérokubbanna sem allir ættu að kynna sér (www.newmero.dk). (27 min)

27.8.2021

#3 Sigurbjörg Elín Hólmarsdóttir - sagnfræðingur

prufa2.jpg

Sigurbjörg er sagnfræðingur og dagskrárgerðarmaður og hefur mikinn áhuga á húsmóðurhlutverkinu. Þá er mikilvægt að undirstrika að þetta er í sagnfræðilegu samhengi - ekki vegna þess að hún sé svo sátt ,,á bak við eldavélina", eins og merkur íslenskur stjórnmálamaður sagði einhverntímann. Sigurbjörg hefur skoðað hlutverk húsmóðurinnar með því að rýna í gamlar matreiðslubækur og er um þessar mundir að leggja lokahönd á útvarpsþætti fyrir RÚV þar sem horft er til húsmæðra Íslands fyrr og nú. Við heyrum af dagskrárgerðarstarfinu og lífsmottóinu, svo ekki sé minnst á dálæti hennar á ákveðinni rauðvínsþrúgu. (27 min)

20.8.2021

#2 Vigdís finnsdóttir - Eigandi Boutique fisk & retreat

vf_pic_.jpg

Vigdís Finnsdóttir er mörgum kunn hér í Danmörku. Eftir að hafa starfað sem kennari í nokkur ár sneri hún kvæði sínu í kross og kastaði sér út í eigin rekstur ásamt eignmanni sínum, Jesper, og bróður sínum Björgvini. Þau komu á legg fiskbúðinni Boutique Fisk sem seldi fiskrétti á allt annan hátt en Danir áttu að venjast. Þetta gekk vonum framar og nokkrum árum síðar opnuðu þau Retreat, sem selur hollan skyndibita fyrir fólk á hlaupunum. Þetta var heljarinnar ævintýri og munu hlustendur fljótlega átta sig á, að hér er á ferðinni algjör dugnaðarforkur sem lætur fátt stoppa sig. (45 min)

13.8.2021

#1 Helga Hauksdóttir - Sendiherra íslands í danmörku

helga harðar.jpeg

Helga Hauksdóttir er menntaður lögfræðingur sem starfað hefur hjá utanríkisþjónustunni bróðurpart (eða eigum við að segja systurpart?) starfsævi sinnar. Fyrir utan að hafa tekist á við fjölbreyttar áskoranir á okkar 'ástkæra ylhýra', hefur Helga einnig sinnt störfum í New York og Stokkhólmi, áður en leið hennar lá til Danmerkur, þar sem hún tók við starfi sendiherra Íslands í ágúst 2019. Þar með gerðist hún einnig fyrsti kvensendiherra í þessu rúmlega 100 ára sendiráði, sem rekur sögu sína aftur til ársins 1920. Aldeilis kominn tími á það! Hér heyrum við af vegferð hennar og spennandi áskorunum í utanríkisþjónustunni, sem og áhugaverðum vangaveltum um hefðbundin karl- og kvenstörf, og breytingar á þeim vettvangi. Já og slúttum svo spjallinu með vel völdum lífsmottóum sem veitt hafa Helgu stuðning og innblástur í gegnum tíðina. (50 min)