Árið 2021 var aldeilis viðburðaríkt hjá félaginu. Þrátt fyrir takmarkanir og aðrar hömlur sem fylgt hafa heimsfaraldri, þá hefur stjórn félagsins ekki setið auðum höndum við uppbyggingu félagsins. Þið félagskonur hafið tekið virkan þátt í henni með ykkar frábæra meðbyr með allri starfsemi félagsins, það er okkur mikil hvatning og þökkum við kærlega fyrir stuðninginn.
Janúar - Stefnumótun og filterslaus vinnudagur
Fyrstu mánuði ársins voru miklar takmarkanir. Þegar við sáum í hvað stefndi þá var ákveðið að nota tímann og skoða stefnu félagsins. Stjórnin lagðist í viðamikla stefnumótun og skerpti á starfsemi, markmiðum og ásýnd félagsins.
Það var stemning á innan félagsins fyrir því að halda félaginu virku þrátt fyrir takmarkanir. Þá var brugðið á það ráð að setja fullan þunga á það sem ekki krafðist þess að við hittumst í persónu. Þar má helst nefna filterslausan vinnudag á Instagram. Á hverjum miðvikudegi höfum við fengið innsýn í vinnudag félagskonu, þar sem félagskona ,,tekur yfir” Instagram og leyfir okkur að skyggnast á bakvið tjöldin og fylgja sér í gegnum vinnudag. Það hefur fengið gríðarlega góðar undirtektir og leikur enginn vafi á því að þið félagskonur hafið bæði áhuga á að segja frá vinnu ykkar, sem og fræðast um vinnu annarra. Ef ske kynni að þið hafið misst af einhverri yfirtöku eða hreinlega vantar áhorf í fríinu, þá eru yfirtökurnar undir ,,highlights” á Instagram. Og auðvitað - ef þið viljið vera með yfirtöku eða þekkið einhverja sem þið viljið benda á, þá viljum við heyra frá ykkur!
Febrúar - Hlaðvarpssamantekt
Ástandið í samfélaginu bauð ekki upp á stærri hittinga en stjórnin fundaði líkt og aðra mánuði. Upp kom sú hugmynd að taka saman þau hlaðvörp sem félagskonur mæla með og úr varð skemmtileg samantekt yfir fjölbreytt úrval hlaðvarpa. Samantektin er uppfærð reglulega og því frábært að leita þangað þegar þig vantar eitthvað nýtt að hlusta á. Að því sögðu þá endilega bentu okkur á fleiri hlaðvörp sem við getum bætt á listann!
Mars - Heimasíða félagsins
Okkur stjórnarkonum fannst hreinlega ekki ganga að félagsskapur sem telur hátt í þúsund konur og með háleit markmið, væri ekki með heimasíðu. Við lögðumst því í heimasíðugerð í mars og fór hún í loftið þann 1. apríl. Heimasíðan rammar inn starfsemi félagsins og má þar finna allar helstu upplýsingar um starfsemina frá stofnun félagsins og fram til dagsins í dag. Þar má einnig finna lista yfir fyrirtæki sem rekin eru af ykkur félagskonum, upptalning sem tilvalið er að nota ef þið þurfið að sækja ykkur þjónustu og viljið styðja við rekstur íslenskra kvenna í leiðinni. Ef þið eigið eftir að skrá ykkar fyrirtæki þá endilega hafið samband við okkur og við græjum það í snatri.
Apríl - Heimasíðan í loftið og skipulagning viðburða!
Þann 1. apríl skáluðum við því heimasíðan fór í loftið, viðtökurnar voru hreint út sagt frábærar og traffíkin á síðuna góð. Eftir leiðinlega langt þurrkatímabil í viðburðamálum gátum við loksins farið að skipuleggja viðburði á ný og það í eigin persónu! Stjórnin kortlagði næstu mánuði og skipulagning hófst.
Maí - Að vingast við markaðssetningu
Þann 25. maí héldum við loks fyrsta viðburð ársins. Það var félagskonan Iona Sjöfn sem starfar sem grafískur hönnuður hjá tískuvörumerkinu Uniqlo, sem reið á vaðið og hélt erindi í Jónshúsi undir yfirskriftinni ,,Að vingast við markaðssetningu”. Þar fræddi hún okkur um sína nálgun á markaðssetningu í starfi og lífi sem grafískur hönnuður.
Júní - Sumargleði FKA-DK
Á fallegum sumardegi á sjálfum þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní, var sumargleði FKA-DK haldin. Þar leiddi stjórnarkonan og verkefnastjóri Norðurbryggju, hún Ásta Stefánsdóttir okkur í gegnum miðaldarbæinn í Kaupmannahöfn og inn í Kóngsins garð, þar sem við borðuðum frábæran mat sem félagskonan Vigdís Finnsdóttir, einn eiganda ReTreat og Boutique Fisk, stóð fyrir. Það var vel við hæfi á degi sem þessum að skála í ísköldu rósavíni með!
Júlí - Sumarfrí
Líkt og Dönum sæmir þá fór stjórnin í sumarfrí í júlí og hlóð batteríin fyrir komandi mánuði, það var aldeilis að birta til í viðburðamálum hjá okkur og nóg annað á döfinni!
Ágúst - Hlaðvarp félagsins, Damerne Først!
Í ágúst fór í loftið hlaðvarp félagsins og ber það heitið Damerne Først! Það er hún Ásta Stefánsdóttir sem spjallar við félagskonur og skyggnist inn í líf og störf þeirra í Danmörku. Hlustendur fá að kynnast vegferð þeirra og fá innsýn í heim skemmtilegra og áhugaverðra kvenna. Í fyrstu seríu ræddi Ásta við Helgu Hauksdóttur sendiherra Íslands í Danmörku, Vigdísi Finnsdóttur eiganda ReTreat og Boutique Fisk, Sigurbjörgu Elínu Hólmarsdóttur sagnfræðing og dagskrárgerðarkomu, Christine Blin eiganda Newmero, Herdísi Steingrímsdóttur vinnumarkaðshagfræðing og dósent við CBS og Ynju Mist Aradóttur eiganda Bake My Day.
Hlaðvarpið má nálgast á hér, við hvetjum ykkur svo sannarlega til að leggja við hlustir ef þið hafið ekki gert það nú þegar og setjið ykkur í stellingar því næsta sería fer í loftið þann 7. janúar!
September - Úr IT í ævintýri og GIF
Við hittumst aftur í Jónshúsi þann 28. september þegar Oddný Sunna Davíðsdóttir, Senior Design Strategist hjá Dawn Health, sagði okkur frá því hvernig var að fara úr IT í ævintýri. Hún sagði nefnilega upp draumastarfinu sínu og hélt á vit ævintýranna um borð í bátnum Freyju ásamt manni sínum og kisu. Á viðburðinum var boðið upp á Tommaborgara frá Tommi’s Burger Joint sem rekinn er af félagskonu okkar henni Sólrúnu Tinnu Eggertsdóttur.
Á þessum fundi voru GIF félagsins einnig kynnt til leiks, en þau má finna í GIPHY-veitunni á Instagram t.d. undir ‘FKA-DK’, ‘Konur eru konum bestar’ og ‘Félag kvenna í atvinnulífinu’. Við hvetjum ykkur eindregið til að nota GIF-in óspart!
Október - Hátíðarfundur og Hvatningarverðlaun
Í október var komið að hátíðarfundi félagsins, sem haldinn er annað hvert ár. Fundurinn var haldinn þann 24. október á Kvennafrídeginum sjálfum, í sendiherrabústað Helgu Hauksdóttur, sendiherra Íslands í Danmörku. Hvatningarverðlaun félagsins voru afhent og var það Herdís Steingrímsdóttir vinnumarkaðshagfræðingur og dósent við CBS, sem hlaut verðlaunin fyrir framlag sitt til rannsókna á jafnréttismálum.
Nóvember - Royal Copenhagen
Þann 18. nóvember var okkur boðið á morgunfund í höfuðstöðvar Royal Copenhagen við Amagertorv á Strikinu. Eydís Elín Jónsdóttir floor manager í höfuðstöðvunum, stóð fyrir heimsókninni. Hún rak sögu fyrirtækisins og fengum við í kjölfarið tækifæri á að skoða okkur um í versluninni og þá meðal annars bera jólaborð ársins augum.
Desember - Liv Bergþórsdóttir
Eftir að hafa frestað þessum viðburði ansi oft vegna takmarkana varð loks af honum. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, kom og hélt erindi þar sem hún fræddi okkur um ,,start up” og stjórnunarreynslu sína.
Það má því segja að við félagskonur höfum styrkt tengslanet okkar til muna og fyllt vel á innblásturstankana eftir þessa viðburðahrinu. Þess má geta að það má finna upplýsingar um alla viðburði félagsins á heimasíðu félagsins, liðna viðburði sem og komandi. Þar er einnig hægt að nálgast miða á komandi viðburði og myndir frá liðnum viðburðum.
Árið varð því mjög viðburðaríkt eftir allt saman, þótt stefnt hafi í annað í byrjun árs. Takmarkanir í byrjun árs buðu upp á að nægur tími var til að styrkja félagið með nýjum hætti, leggjast í stefnumótun, hugsa út fyrir kassann og finna leiðir til að bæta við starfsemina. Viðtökurnar fóru fram úr öllum væntingum og er greinilega mikið svigrúm og áhugi innan félagsins, fyrir nýjungum og aukinni starfsemi. Það gleður okkur mikið og erum við þakklátar fyrir þann frábæra félagsskap sem Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku er. Samstaða innan félagsins er mikil. Það er gaman að sjá margar ykkar mæta á hvern viðburð á fætur öðrum og upplifa hversu vel tekið er á móti nýjum félagskonum. Við höldum áfram að efla félagsskapinn í sameiningu og erum með háleit markmið fyrir komandi ár.
Við þökkum ykkur kærlega fyrir starfsemina á árinu sem er að líða og hlökkum til komandi árs með ykkur. Gleðilegt nýtt ár kæru félagskonur!
Næst á dagskrá
7. janúar - Önnur sería hlaðvarpsins Damerne Først! fer í loftið.
20. janúar - Heimsókn til Icelandair. Bake My Day og Nicecream verða einnig með kynningu.
Kær kveðja,
Stjórn FKA-DK
Comments